December 14, 2010

Helmut Newton

Einn af mínum uppáhalds ljósmyndurum er Helmut Newton. 
Hann var tískuljósmyndari en varð hvað þekktastur fyrir að taka myndir af nöktum konum.

Helmut Newton

Helmut fæddist í Berlín 1920. Hann fékk fyrst áhuga á ljósmyndun þegar hann var 12 ára gamall og eignaðist þá sína fyrstu myndavél. 
Þegar ofsóknir Nasista á gyðingum hófst, flúði Helmut frá Þýskalandi með fjölskyldu sinni. Þau ákváðu að fara til Chile en á leiðinni stoppuðu þau í Singapore þar sem Helmut ákvað að vera áfram.
Stuttu síðar flutti hann til Ástralíu þar sem hann starfaði meðal annars í ávaxtatýnslu. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar opnaði Newton ljósmyndastúdíó ásamt félaga sínum, Henry Talbot. Þeir urðu mjög vinsælir og þá sérstaklega Helmut. Hann fluttist til London til að vinna fyrir breska Vogue og eftir tæplega ársdvöl þar fór hann til Parísar þar sem hann tók myndir fyrir franska Vogue og nokkur þýsk tímarit. Hann bjó lengi í París og varð mjög frægur fyrir tískuljósmyndir sínar, en þó aðallega myndir sínar af nöktum konum.
Í seinni tíð bjó Helmut í Californiu en lést árið 2004 þegar hann fékk hjartaáfall í bíl sínum og ók á húsvegg.


Mér finnst myndirnar hans geggjaðar! Hvernig hann vinnur með ljós og skugga og svo er bara einhver svona glam bragur yfir þeim. 

Ég elska tískuna og stemninguna frá þessum tíma, þegar allir í bransanum djömmuðu á Studio 54 og fólk eins og Andy Warhol, Edie Sedgewick, Helmut Newton, Bianca Jagger, Jerry Hall, Liza Minelli, Debbie Harry, Woody Allen og Frank Sinatra voru aðal liðið..



-Hildur



No comments: